Óháð vottunarnefnd á vegum írsku vottunarstofunnar Global Trust/SAI Global hefur endurvottað veiðar á ýsu og ufsa á Íslandsmiðum samkvæmt íslensku kröfulýsingunni um ábyrgar fiskveiðar. Vottunin staðfestir að veiðunum er stjórnað á ábyrgan hátt í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar kröfur og ber vitni um framþróun í íslenskum fiskveiðum.
Kröfulýsingin sem vottað er eftir er staðall sem byggir efnislega á samþykktum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Óháð mat vottunarstofunnar var unnið eftir ISO65 faggiltu kerfi Global Trust og veitir trúverðuga vottun þriðja aðila á ábyrgri fiskveiðistjórnun.
Úttektin fól í sér yfirgripsmikla skoðun á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu, þar á meðal stjórnunarreglum, aflamarkskerfinu og mati á stærð stofnanna. Niðurstaða úr mati vottunarnefndar var að stjórnkerfið og aflareglur fælu í sér varúðarnálgun sem stuðlar að ábyrgum veiðum og góðri umgengni um vistkerfið.
Útflutningsverðmæti ýsuafurða var rúmlega 19 milljarðar króna árið 2013 og ufsaafurða rúmlega 27 milljarðar króna. Aflamark í ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári er 30.400 tonn og ufsa 58.000 tonn.
Meginmarkmið Iceland Responsible Fisheries verkefnisins er að treysta stöðu íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum og styrkja ímynd Íslands sem upprunalands sjávarafurða þar sem stundaðar eru ábyrgar fiskveiðar. Þetta er gert með sérstöku upprunamerki og vottun á fiskistofnum í íslenskri lögsögu sem grundvallast á alþjóðlega viðurkenndum kröfum.
Nú eru 117 aðilar í 11 löndum skráðir notendur að upprunamerkinu , þar af 75 íslensk fyrirtæki. Sjá lista.
Fjórir fiskistofnar hafa hlotið vottun samkvæmt íslensku kröfulýsingunni um ábyrgar fiskveiðar (Icelandic Responsible Fisheries Management Specification). Vottunin staðfestir að veiðunum er stjórnað á ábyrgan hátt í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar kröfur og ber vitni um framþróun í íslenskum fiskveiðum.
Vottunarskýrslurnar munu verða aðgengilegar á vef http://responsiblefisheries.is.