Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, verkefnastjóri tískufyrirtæksins Eyland, kom færandi hendi á skrifstofu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í morgun, með ljómandi fallega boli. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd beið Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri samtakanna, ekki boðanna heldur brá sér í einn í snarhasti.
Myndina á bolnum hannaði Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, fyrir Eyland og eru þeir seldir til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands í tilefni Mottumars. Myndin sýnir verkið „Drengurinn með tárið,“ eftir Bruno Amadio, með yfirvararskegg Salvardors Dalís.
Á Facebook-síðu sína skrifar Jón Gnarr: „Sorg og þjáning getur dregið okkur niður. Ótti er lamandi. En húmor er frelsi.“ Í þessum orðum kristallast einnig aðferðarfræði Mottumars, þar sem húmor er notaður til að vekja athygli á alvarlegu málefni sem oft er auk þess mikið feimnismál.
Sigrún Edda, eða Sissa eins og hún er reyndar alltaf kölluð, skorar á alla sem eignast svona bol, að taka af sér selfie og merkja á eftirfarandi hátt
#gnarrxeyland #égskoraàþig #mottumars #eylandworld.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa þann heiður að vera aðalstyrktaraðili Mottumars ætla ekki að láta sitt eftir liggja í þeim efnum.
Sissa, Kolbeinn og drengurinn með tárið
Allur ágóði af sölu bolanna mun renna óskiptur til Krabbameinsfélags Íslands. Fallegt og óeigingjarnt samstarf sem við hvetjum fólk til að styðja!
Bolirnir eru fáanlegir í GK Reykjavík, SUIT, Húrra Reykjavík, í netverslun Eyland og netverslun Krabbameinsfélags Íslands og kostar 8.900 krónur. Eins og sjá má fer bolurinn þeim Sigurúnu og Kolbeini sérlega vel en fleiri myndir má sjá af honum hér.
