Við deilum hér frétt sem birtist í kvöldfréttum RÚV þann 19. október um áhrif falls pundsins á útflutningsverðmæti þjóðarinnar.
Þessi gengisþróun veldur fiskútflytjendum hins vegar áhyggjum og þeir sjá fram verulegan samdrátt í tekjum. Heiðrún Lind Marteinsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
„Árið 2015 vorum við að flytja út fyrir jafnvirði 48,5 milljarða króna til Bretlands. Við erum að sjá að árið 2015 var meðalgengi punds gagnvart krónununni sirka 201. 2016 má gera ráð fyrir að meðalgengið verði 164. Þannig að ef maður horfir bara gróflega út frá þessu þá mætti áætla að þetta geti orðið um 9 til 10 milljarðar króna samdráttur í útflutningsverðmætum sem er auðvitað verulegt,“ segir Heiðrún.
Í byrjun mánaðarins sagði fiskvinnslufyrirtækið Frostfiskur upp 32 starfsmönnum og sögðu stjórnendur fyrirtækisins óhagstæða gengisþróun helstu ástæðuna. „Þegar tekjurnar fara að dragast saman en kostnaður lækkar ekki á móti þá étur það upp framlegðina smám saman og við erum farin að sjá áhrif þess strax og Frostfiskur er kannski fyrsta dæmið.“
Heiðrún segir fiksútflytjendur bregðast við með því að reyna að hækka verð, en það hafi ekki gengið nægilega vel.
- Það ætlar sér væntanlega enginn að tapa peningum í viðskiptum, eru útflytjendur þá ekki á fullu að reyna að finna nýja markaði?
„Jú og ég held að menn séu orðnir nokkuð góðir því því að finna nýja markaði, þetta eru áhrifaþættir sem menn þurfa að taka tillit til í þessum bransa. En það er erfitt að finna nýja markaði fljótt og örugglega og þú lokar ekki á langtímaviðskiptasambönd á einni nóttu,“ segir hún.
Aðspurð segist hún ekki vera að mála dökka mynd af stöðunni. „Nei við erum bara að lýsa staðreyndum um hvað gæti orðið og áhrif svona utanaðkomandi þátta á sjávarútveg,“ segir Heiðrún Lind.