Allar vörur sem framleiddar eru, sama hvaða nafni þær nefnast, þarf að selja vilji maður hafa eitthvað upp úr framleiðslunni. Það þarf að vera markaður fyrir þær. Markaðurinn byggist á því að einhverjir vilji kaupa vöruna á því verði sem framleiðandinn er tilbúinn að selja á. Samhengið er nokkuð augljóst.
Íslenskan fisk þarf alltaf að flytja á markað; annaðhvort með flugi eða skipi, frystan eða ferskan. Því fylgir óhjákvæmilega kostnaður sem ekki verður hjá komist. Samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs er lakari, því lengra sem flytja þarf fiskinn. Nefna má að flutningskostnaður er umtalsvert hærri hjá íslenskum fyrirtækjum en norskum, en Norðmenn eru okkar helsta samkeppnisþjóð í sjávarútvegi.
Alþjóðlegir og staðbundnir
Markaðir geta verið alþjóðlegir eða staðbundnir. Markaður fyrir súra íslenska hrútspunga er nokkuð staðbundinn á Íslandi. Öðru máli gegnir um íslenskt sjávarfang. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru um 98% af íslenskum fiski seld á alþjóðlegum markaði. Þar fer baráttan um hylli neytenda fram, þar er víglína íslensks sjávarútvegs. Sá sem situr eftir í samkeppninni er fljótt afskrifaður. Íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hefur tekist vel í sölu á sinni framleiðslu. Sem betur fer. Það eru þó blikur á lofti sem ber að taka alvarlega. Hverjar eru þær?
Samkeppni og vinnuafl
Samkeppnin á mörkuðum þar sem íslensk fyrirtæki hafa komið ár sinni fyrir borð miðast ekki eingöngu við það að íslenskur þorskur keppi við þorsk frá öðrum þjóðum, eða ýsa við ýsu. Markaðssetning á fiski snýst öðrum þræði um að fá fólk til að borða fisk, síðan er hægt að reyna að fá fólk til að kaupa ákveðnar tegundir af fiski frá ákveðnum löndum. Íslenskt sjávarfang keppir við sjávarfang frá öllum heimshornum. Einnig frá löndum þar sem vinnuafl er margfalt ódýrara en hér á landi. Segja má að þarna séu í uppsiglingu tvær áskoranir sem tengjast.
Fyrst er að nefna hið augljósa að ódýrt vinnuafl í útlöndum verði til þess að unninn fiskur frá Íslandi missir að nokkru leyti samkeppnishæfni. Við það færist virðisauki vinnslunnar og að lokum vinnslan úr landi. Hið síðara er að þegar hallar undan fæti hjá fiskvinnslunni minnkar getan til fjárfestinga. En það er einmitt með aukinni fjárfestingu í nýjustu tækni sem hægt er að mæta samkeppni. Þarna leiðir eitt af öðru.
Önnur áhrif – tæknifyrirtæki
Fleiri áskoranir munu þó fylgja, sem eru kannski ekki eins augljósar. Mikið af þeirri tækni, sem notuð er í íslenskri fiskvinnslu og íslenskum skipum, er hannað og framleitt af íslenskum fyrirtækjum. Þessi iðn- og tæknifyrirtæki hafa á undanförnum árum flutt út tæki og tól fyrir tugi milljarða króna. Tilvist margra þeirra og tilurð er vegna íslensks sjávarútvegs. Án öflugs sjávarútvegs og getu til fjárfestinga hefðu mörg þessara fyrirtækja ekki komist á legg. Innan iðn- og tæknifyrirtækja vinnur vel menntað fólk úr ýmsum geirum og störfin eru vel borguð. Þarna hefur orðið til raunveruleg auðlind við hlið hinnar hefðbundnu í sjónum. Þessi þróun er afar jákvæð og þjóðhagslega mikilvæg. Skert samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs mun hafa neikvæð áhrif á hana. Æxlist hlutir á þann veg væri það afar dapurlegt og í raun ábyrgðarhluti að láta svo fara.
Heimatilbúnar hindranir – hætta
Þá ber að nefna að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki njóta í engu ríkisstyrkja eins og sjávarútvegur víða um heim. Einnig eru gjöld á íslenskan sjávarútveg þau hæstu í heimi og íslenskur sjávarútvegur er einn örfárra sem greiðir auðlindagjald. Allt þetta verður til þess að draga úr samkeppnishæfninni. Eitt lítið dæmi um skattlagningu sem er umfram það sem gerist í okkar helsta samkeppnislandi. Á Íslandi er lagt á kolefnisgjald, eins og í Noregi. Hér á landi er það tæpar 10 krónur á hvern lítra olíu, en í Noregi 4 krónur. Þarna munar um minna, því eldsneytiskostnaður er að jafnaði annar stærsti kostnaðarliður í útgerð.
Eitt er það að ákvarðanir til heimabrúks dragi tennurnar úr samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum vettvangi. Annað er að vinna upp stöðu á mörkuðum, tapist hún á annað borð. Þótt margir vilji fisk á sinn disk, eru ákveðin fyrirtæki úti í hinum stóra heimi sem hafa mikið um það að segja hvaða fiskur endar í hvaða búðum. Traust og viðvarandi viðskiptasambönd hafa verið fléttuð milli íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og útlendra kaupenda. Þar skiptir afhendingaröryggi mestu máli. Það er, að kaupendur fái sinn fisk þegar þeir vilja og það með reglubundnum hætti.
Ábyrgð á uppnámi
Álögur á íslenskan sjávarútveg og óróleiki í starfsumhverfi hans heima fyrir skemma fyrir og draga úr samkeppnishæfni sjávarútvegsins og hættan við þær aðstæður er sú að tengslin við kaupendur trosna. Slitni þau alveg er hægara sagt en gert að koma þeim á, á nýjan leik. Þar með væri þurrkað út áratuga samstarf á milli erlendra kaupenda og íslenskra framleiðenda. Því skyldum við, að ástæðulausu, setja þann góða árangur sem náðst hefur í markaðssetningu á fiski í uppnám; hver ætlar að taka ábyrgðina á því að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki missi samkeppnishæfni og þar með fótfestu á alþjóðlegum markaði?
Heiðrún Lind Marteinsdóttir